
Nám & starf í Regnboganum
Fyrstu og mikilvægustu uppalendur og fyrirmyndir barnsins eru foreldrar þess og ekkert getur komið í staðinn fyrir gott foreldrauppeldi og umönnun. Nám og leikur í leikskóla á að vera mikilvæg viðbót og góð undirstaða hverju barni fyrir lífið sjálft og formlegra nám síðar meir. Sameiginleg markmið foreldra og skóla ættu að leiða til þess að barnið verði öruggt, hamingjusamt og frjótt, með sjálfsaga og getu til að virða bæði sjálft sig og aðra.
Við leggjum áherslu á góða samvinnu við foreldra sem stuðlar að heilbrigðum alhliða þroska og heill barnanna.
Í Regnboganum er sú sýn höfð að leiðarljósi að öll börn eru máttug og mikilhæf og að hvert og eitt þeirra búi yfir fjölbreyttum hæfileikum til að tileinka sér færni og þekkingu.
Það er hlutverk okkar að skapa börnum í leikskólanum tækifæri og aðstæður til að nýta allt það sem í þeim býr. Gildin (leiðarljós) í starfi leikskólans eru:
Virðing – Gleði – Umhyggja.
Okkar markmið
Markmið Regnbogans eru að hvert barn öðlist;
-
góðan almennan þroska
-
tilfinningalega færni
-
sterka sjálfsvitund
-
sjálfsaga
-
hæfni í samskiptum
-
skapandi færni
-
frjóa hugsun
Þessir þættir eru grundvöllur þess að börnin verði hamingjusamir einstaklingar með færni til að takast á við formlegra nám síðar meir og að vera skapandi frumkvöðlar í lífi sínu og starfi.
Stöðvavinna
Í Regnboganum eru leiksvæðin skipulögð með það í huga að bjóða börnunum uppá sem fjölbreyttast námsumhverfi. Leiksvæðin köllum við stöðvar og börnin fara á tilteknum tímum í stöðvavinnu. Stöðvarnar taka mið af aldri barnanna á deildunum. Dæmi um stöðvar eru: ljósastöð, hreyfistöð, listastöð, kubbastöð, útistöð, málstöð, könnunarleikur o.fl. stöðvar allt eftir því sem áhugi barnanna kallar á hverju sinni.
Skráningar
Við leggjum áherslu á að gera allt nám og starf barnanna sýnilegt í umhverfi þeirra og lítum þannig á að mikilvægt sé að hvert barn finni að því sjálfu og verkum þess sé sýnd virðing. Það gerum við fyrst og fremst í samskiptum en líka með því að hengja upp teikningar barnanna, frásagnir og sögur svo dæmi séu tekin. Við tökum líka mikið af ljósmyndum í starfinu og hengjum þær upp en ljósmyndirnar eru góðar til að sýna enn betur það sem börnin eru að gera og hversu mikilhæf þau eru.
Námsbók barnsins
Teikningar, ýmsar skráningar og ljósmyndir um nám og starf barnanna í Regnboganum eru sett saman í bók sem afhent er í við lok hvers starfsárs ásamt diski með þeim ljósmyndum sem teknar hafa verið í starfinu.
Nám í leik
Börn læra best og eðlilegast í gegnum leik. Leikurinn í sinni fjölbreyttustu mynd er leið náms og þroska í lífi ungra barna. Leikurinn er kjarninn í öllu námi og starfi í leikskóla. Í leik öðlast börn m.a. þekkingu, færni, fimi og frjóa hugsun. Leikurinn er náms- og þroskaleið barnsins og um leið kennslutæki kennarans. Leikurinn er því bæði markmið og leið í uppeldi og menntun ungra barna. Frjáls og sjálfsprottin leikur barna er hið eðlilega tjáningarform þeirra. Vel ígrundað starf kennarans styður og skipuleggur nám í leik með það að markmiði að efla alla þroskaþætti barnanna. Náms- og þjálfunargögn leikskólans eru bæði bækur og leikföng en ekki síst allt það sem er að finna í náttúrunni, umhverfi okkar og menningu. Í leik læra börnin einnig samskipti, reglur og mannasiði. Í leik með öðrum börnum læra börn að vera jafningjar og í gegnum leikinn finna þau styrkleika sína og hvers þau eru megnug. Í Regnboganum er lögð áhersla á að skapa börnum vel skipulagt og fallegt námsumhverfi með fjölbreyttum tækifærum til að spreyta sig.
Tilfinningalega styðjandi umhverfi
Við viljum skapa barnvænt umhverfi, rækta tillitsemi, vináttu og kærleika og stuðla þannig að góðum samskiptum milli barna sem og barna og fullorðinna. Við viljum sýna börnum virðingu, gleði og umhyggju svo þau læri sjálfsvirðingu. Við leggjum áherslu á skapandi samskipti svo börnin öðlist færni til að koma skoðunum sínum á framfæri og læri að virða skoðanir annarra. Við leggjum áherslu á réttlæti og samhygð barnanna svo þau öðlist innri aga og læri tillitsemi og réttsýni gagnvart hvert öðru. Við leggjum áherslu á hvatningu og að hrósa fyrir gott framtak og gott fordæmi svo börnin gefist síður upp þó á móti blási. Við viljum vera til staðar og hjálpa barni að skilja tilfinningar sínar í reiði, sorg, áræði og gleði. Í daglegu starfi leggjum við því rækt við léttleika og gleði til að læra að taka sig ekki of alvarlega en um leið reynum við að skapa andrúm og festu þar sem börnin tileinka sér daglegar umgengnisreglur og almenna mannasiði. Virðing og festa í daglegum ramma þar sem réttlátar reglur gilda stuðla að sjálfsstjórn barnsins, innri aga og ró. Allt er þetta hluti af tilfinningalega styðjandi umhverfi.
Skapandi starf
Til að börn geti þróað með sér skapandi hugsun þarf að skapa börnum frjótt og vel skipulagt barnvænt leikumhverfi (inni og úti) sem hvetur til fjölbreyttra leikja og uppgötvana barnanna. Efniviður og aðstæður eiga að hvetja til könnunar og rannsókna á hlutum og fyrirbærum í daglegu lífi okkar, náttúrunni og umhverfinu. Starfið á að vera börnunum hvatning til að tjá sig á fjölbreyttan og skapandi hátt s.s. í máli, leik, tónlist og myndíð. Við leggjum áherslu á að gera starf barnanna sýnilegt með teikningum þeirra, ljósmyndum og skráningum á því sem þau segja og gera. Aðalatriðið í sköpun er ferlið sjálft og sú samræða sem börnin fara í gegnum í daglegu starfi, uppgötva og nema í starfinu og sem fleytir þeim áfram í þroska. Við viljum virða og taka tillit til getu barnsins og löngunar eins og hún birtist á hverjum tíma og leggja okkar af mörkum til að skapa kjöraðstæður einmitt á þeim tíma sem barnið er tilbúið til að skoða/rannsaka, taka á móti og nema.
læsi
Við viljum stuðla að skapandi tjáningu og virkri hlustun í daglegu starfi og rækta þannig móðurmálið okkar. Börn þurfa þjálfun í hlustun, tjáningu og góðar fyrirmyndir heima og í leikskólanum til að öðlast góðan og fjölbreyttan orðaforða. Grunnurinn að góðum málþroska hefst með fyrsta hjali foreldra við barn sitt. Öll málreynsla sem á eftir kemur skiptir miklu fyrir mál- og lesþroska barnsins, nú kallað læsi í námsskrám. Í Regnboganum byrjum við strax meðvitað á Gulu deildinni að vinna að eflingu mál- og lesþroska og gerum ritmálið sýnilegt og eðlilegt í umhverfinu. Börnin leika sér að hljóða stafinn sinn og síðar stafinn hennar mömmu, hans pabba, afa og ömmu, dýranna o.s.fr. Smám saman ná börn færni með hljóð allra stafanna og að skilja að hver stafur er tákn um málhljóð. Hljóð sem hægt er að leika með og tengja saman í orð og hugtök. Samræður, sögur, söngur og söngtexti veita barni góða þjálfun í að æfa málið og nota það. Allt stuðlar þetta svo að heilbrigðri hljóðkerfisvitund barnanna og byggir undirstöður fyrir mál þeirra og lesþroska. Við gerum ritmálið sýnilegt á öllum deildum barnanna og stuðlum þannig að tengslum ritmáls og leiks. Smám saman læra börnin að hljóða stafina og þekkja, að ríma, klappa takt/atkvæði í orði, tengja stafina saman í merkingarbær orð t.d. nafnið sitt og sinna, að para saman hljóð og sundurgreina hljóð og o.fl. Allir þessir þættir eru mikilvægir fyrir þróun hljóðkerfisvitundar og í þróun máls- og lesþroska barnanna. Mál- og lesþroski er í Aðalnámskrám Mrn. frá 2011 nefnt LÆSI. Læsi í aðalnámskrám á líka við um það að vera læs á samskipti, náttúruna, menningu okkar og umhverfi svo eitthvað sé nefnt eða Læsi í sinni víðustu mynd.
stærðfræðilegt læsi
Við viljum styðja við og efla stærðfræðilegt læsi barna í gegnum leik. Það gerum við m.a. með því að vekja athygli barnanna á stærðfræði í umhverfinu s.s. á fjölda (1, 2, 3, 4 og 5 steinar), stærð (lítill, stór, stærri, minni o.s.fr.), lögun (s.s. stuttur, langur o.s.fr.) magnhugtök (s.s. fáir, margir, meira og minna o.s.fr.), eðli hluta (s.s. léttur og þungur o.fl.). Börnin læra um helstu formin og reyna að finna þau í umhverfinu s.s. ferning, þríhyrning og hring. Þá æfa börnin sig í að telja og skilja hvað stendur á bak við fjölda (talnaskilningur), læra að flokka, para saman og sundurgreina. Eldri börnin æfa sig í að gera súlurit (3 eru í gulum peysum, 2 í rauðum, 5 í bláum o.s.fr. ), æfa burðarþol og ýmsa verkfræðilega hugsun í leik. Vakin er athygli barnanna á litum, formi og magni allt í kringum okkur. Allt stuðlar þetta að dýpri stærðfræðilegum skilningi þegar í formlegra nám er komið á efri skólastigum.
Vísdómsstarf elstu barnanna
Í starfinu með elstu börnunum (vísdómsstundum) er meginmarkmiðið að börnin öðlist: Sterka sjálfsvitund, hæfni í samskiptum, skapandi færni og frjóa hugsun. Hver þessara þátta er afar mikilvæg undirstaða fyrir formlegra nám og störf síðar meir. Nám í Regnboganum fer fyrst og fremst fram í gegnum leik og rannsakandi vinnu barnanna. Við lítum svo á að hvert barn sé einstakt, með fjölþætta og mikilvæga eiginleika og í samstarfi við foreldra reynum við að styðja hvert og eitt þeirra til að finna sinn eigin gjörvileika. Haft er að leiðarljósi að börnin viti hvað er framundan næsta skólaár og að þau upplifi grunnskólann sem jákvætt og eðlilegt framhald leikskólaáranna. Í Vísdómsstundum er unnið í samfellu við starf fyrri ára í Regnboganum en með ákveðnum hætti eru aðferðir grunnskólastigsins nýttar s.s. með því að vinna í fyrirfram tilbúinni vinnubók með ákveðnum verefnum. Að öðru leyti er um skapandi samþætt starf að ræða sem kemur inná alla þroskaþætti. Þá má nefna að elstu börnin semja og setja upp leikrit, gera leikmynd, boðsmiða og annað sem gera þarf sem er gott dæmi um samþætta vinnu með alla þroskaþættina. Mikilvægt er að átta sig á að leikskólabörn eru að vinna afar mikilvægt starf og mikilvægt að njóta stundarinnar og skapa börnum aðstæður til að „gleyma sér“ í viðfangsefninu.
K-PALS
Frá árinu 2013 höfum við einnig notað efnið KPALS. Um er að ræða kennsluefni eða læsisaðferð sem þróuð var í Vanderbilt University í Tennesse-fylki í Bandaríkjunum og staðfært á Íslandi af Skólaskrifstofu Mosfellsbæjar sem hefur leyfi til að kenna kennurum aðferðina. Aðferðin/efnið gefur kennurum kost á að vera samtímis með innlögn fyrir hóp 5 ára barna. Markmiðið er að örva enn frekar og þjálfa börn í hljóða- og stafaþekkingu, læsi og stærðfræði. Í framhaldi af innlögn kennara parar hann saman tvö og tvö börn sem vinna svo saman í verkefnabók undir handleiðslu kennarans. Nálgunin er jafningjamiðuð eða svo kölluð félagakennsl. Kennarar Grænu deildar hafa réttindi til kennslu með K-PALS.
Útskriftarferð við leikskólalok
Hefðbundin útskriftarferð Regnbogans er dagsferð á Þingvelli. Undirbúningur fyrir ferðina fer fram vikurnar á undan í vísdómsstarfinu þar sem börnin eru frædd um náttúru og menningu í þjóðgarðinum og börnin leita að ítarefni um Þingvelli á netinu. Í ferðinni upplifa börnin svo og nema enn dýpra sögu staðarins og njóta umhverfisins undir dyggri handleiðslu skólastjórnenda og kennara.
Útskrift
Í lok maí er foreldrum boðið í útskriftarveislu og börnin fá afhent kveðjuskjöl, námsbók og gögn frá síðasta skólaári sínu í Regnboganum.
víkingasveitin
Að lokinni útskrift og fram að sumarleyfi býður Regnboginn uppá sumardeild fyrir 6 ára börnin. Í upphafi völdu börnin nafnið Víkingar á sumarhópinn en nú orðið víkingasveit. Tilgangur sveitarinnar er að bjóða elstu börnunum uppá kröftugt starf að lokinni leikskólaútskrift við hæfi barna sem senn hefja grunnskólagöngu sína. Nafn sveitarinnar vísar til þess að leggjast í víking og merkir þann sem víða fer, nemur og forframast. Lögð er áhersla á skapandi starf útivið, náttúruvernd, að upplifa og njóta náttúrunnar, vettvangsferðir nær og fjær, leikræna tjáningu, hreyfingu og útinám, farið er á sundnámskeið og heimsóknir í söfn, vinnustaði og ýmislegt fleira. Markmiðið er að ferðir víkinganna skapi góðan endi á ljúft en fjörmikið leikskólastarf Regnbogans.
Mat á skólastarfi
Börn, foreldrar og starfslið koma öll að mati á starfi leikskólans. Matið er bæði óformlegt og formlegt símat. Uppeldisfræðilegar skráningar s.s. teikningar, frásagnir og ljósmyndir eru lagðar til grundvallar símatsins. Besta og skilvirkasta matið eru samræður við börnin sjálf um hugmyndir þeirra, líðan og afstöðu. Sama á við um samræður samstarfsaðila á fundum og skipulagsdögum um það sem betur er hægt að gera í skólastarfinu. Sem dæmi má sjá ótrúlegar framfarir barna í teikningum þeirra og ýmsum öðrum skráningum s.s. ljósmyndum. Tilgangurinn er að spyrja okkur Hvað betur má fara í daglegu starfi.
Mat barnanna
Lögð er stutt könnun fyrir börnin (á þeirra forsendum) við 4 ára aldur og við lok leikskóla (6 ára). Börnin teikna sjálfsmynd en dæmi um spurningar eru: Hvað lærir þú í Regnboganum?, í hverju ertu dugleg/ur?, hvaða matur finnst þér góður?, hvað langar þig að gera þegar þú verður stór?, hvað gera kennararnir á þinni deild? hvað gerir skólastjórinn? Við lok leikskóla bætist við könnun með nokkrum spurningum sem sendar eru grunnskóla barnsins s.s. í hverju ertu dugleg/ur?, Hvað kanntu?, hvað hlakkar þú mest til að læra þegar þú kemur í grunnskólann þinn? Öll þessi gögn fara heim með barninu og eru bæði fróðlegur og skemmtilegur þáttur á mati.
Hljóm2
Könnunin Hljóm2, um hljóðkerfisvitund (málþroska) 5 ára barna er gerð að hausti síðasta leikskólaárs barnsins. Tilgangurinn er að finna út hvort við þurfum að þjálfa einstaka þætti mál- og lesþroskans og efla betur áður en börnin færast á næsta skólastig og hefja grunnskólagöngu sína. Eftirfarandi þættir í hljóðkerfisvitund eru kannaðir: rím, samstöfur, samsett orð, hljóðgreining, margræð orð, orðhlutaeyðing og hljóðtenging. Niðurstöður geta gefið mikilvægar vísbendingar um það sem þarf að vinna með yfir veturinn til að efla mál- og lesþroska barnanna áður en grunnskólaganga þeirra hefst. Í samræmi við lög um skólastigin og með það markmið að mæta þörfum barna sem best þegar í grunnskóla er komið eru niðurstöður HLJÓMS2 eru kynntar foreldrum og sendar þeim grunnskóla sem barnið fer í. Kennarar Regnbogans hafa réttindi til að vinna með og lesa úr HLJÓM2
Starfslið
Sjálfsmatskönnun er lögð fyrir starfsfólk um viðhorf þeirra til starfsins, um eigið framlag og hugmyndafræði leikskólans ásamt starfsviðtölum.
Mat foreldra
Gerð er formleg könnun (á netinu) annað hvert ár meðal foreldra á vegum Tölfræði- og rannsóknardeildar borgarinnar. Sú könnun er opinber könnun gerð til að kanna starfshætti og viðhorf foreldra til skólans. Borgin notar gögnin einnig sem opinber eftirlitsaðili til að bera saman við aðra leikskóla í borginni.
Foreldraviðtöl
Skipulögð foreldraviðtöl eru einu sinni á ári frá sept. –maí og er raðað nálægt afmælisdegi barnsins eftir því sem hægt er. Að öðru leyti eru foreldraviðtöl samkvæmt samkomulagi og óskum. Foreldrar geta alltaf óskað eftir viðtali við deildarstjóra og/eða leikskólastjóra. Símatímar deildarstjóra eru milli kl. 13.00 og 14.00 mánudaga til fimmtudaga. Símatími skólastjóra er milli kl. 8.30 og 10.00, viðtalstímar eru eftir samkomulagi.
Foreldrafundir
Foreldrafundir eru að jafnaði haldnir stuttu eftir upphaf starfsárs og fer þá fram kynning á starfinu framundan, kosið er í foreldra– og skólaráð o.fl. Fræðslufundir eru haldnir í samstarfi við foreldrafélagið og einnig býðst foreldrum að mæta á fræðslufundi starfsliðs eftir því sem við á.
Opið hús
Opið hús, uppákomur og listsýning barnanna er að áliðnum vetri ár hvert. Þá skipuleggur foreldrafélagið kaffihús í sal skólans. Fjölskyldur barnanna og aðrir áhugasamir eru hjartanlega velkomin til að skoða og eiga samræður við börnin um nám þeirra og starf í leikskólanum.
Eigur barnanna
Ekki er tekin ábyrgð á fatnaði, leikföngum né öðrum eigum barnanna og skulu eigur barnanna vera vel merktar. Þá er bent á að mikilvægt er að börnin séu þannig klædd að þau geti óhikað tekist á við verkefni sín bæði inni og úti.
Tilkynning um fjarveru
Foreldrar eru beðnir um að tilkynna fjarveru barna sinna fyrir kl. 9.00 á netfang viðkomandi deildar sem er nafn deildarinnar s.s. gula@regnbogi.is Þetta er mikilvægt fyrir skipulag dagsins en ekki síður svo hægt sé að segja börnunum frá því í samverustund kl. 9.00 að “Ása er heima með magapest” eða “Gunnar er í fríi í dag með afa og ömmu.” Skilaboðin eru þannig mikilvægur liður í að efla samkennd og skilning meðal barnanna. Starfsfólk er ekki kallað í síma nema mjög áríðandi sé. Skilaboð eru skráð á skilaboðatöflu og þar nálgast starfslið deildanna þau. Ef óskað er eftir að deildarstjóri hringi í foreldra í símatíma e.h. sendið þá endilega skilaboð um það í tölvupósti á viðkomandi deild.
Kennarar og starfslið Regnbogans
Starfsmannastefna tekur mið af sömu gildum og allt annað starf í skólanum með áherslu á Gæði í samskiptum, menntandi og styðjandi umhverfi. Allt starfsfólk skólans er bundið þagnarskyldu um allt er varðar einkahagi barna, fjölskyldna og samstarfsfólks. Trúnaður gildir bæði í starfi og að starfi loknu.