top of page

Hugmyndafræðin að baki okkar starfi 

Hugmyndir sem m.a. liggja til grundvallar starfi Regnbogans:

  • Horft er til hugmynda og aðferða Loris Malaguzzi og skólanna í Reggió Emilia.

  • John Dewey um að þekking mótast ekki af lausninni heldur fremur af því sem gerist við leit hennar.

  • Howard Gardner um fjölgreindarkenninguna þar sem fjölþætt greind/færni okkar spilar vel saman og styður hvern og einn til að finna sinn eigin gjörvileika og styrk,  eigindir og hæfileika. Að það sé allra uppalenda (foreldra, skóla og yfirvalda) að skapa börnum gott umhverfi, aðstæður og efnivið til að spreyta sig við, rannsaka og upplifa. Gardner segir að börn hafi meðfædda hæfileika til að lesa umhverfi sitt með öllum skilningarvitum og afla sér fróðleiks  og þekkingar sem er margfalt flóknari en almennt hefur verið talið.

  • Daniel Goleman um tilfinningagreind og mikilvægi þess að skilja börn  og mæta þeim í sorg þeirra, reiði, gleði sem og framtakssemi.  Öll börn þarfnast skilnings og stuðnings til að verða heilsteyptar manneskjur með færni í samskiptum, sjálfsaga og sterka sjálfsvitund. 

Á öllu þessu byggist uppeldi og menntun í Regnboganum og hugmyndir okkar um að öll börn

séu sterk og hæfileikarík, hvert á sinn hátt.
 

Loris Malaguzzi og Reggió

Loris Malaguzzi (f. 1920-1994) var sálfræðingur, kennari og aðalfrumkvöðull varðandi nám ungra barna. Hann sagði að kennsla væri of oft einræður kennara sem reyndu að troða (put in) þekkingarmolum í börn fremur en að styðja börn til sjálfshjálpar og kenna þeim að finna leiðir til að uppgötva þekkingu. Í Reggió er sagt að Börn hafi 100 mál og er þá vísað til þess að allir hafi fjölbreyttar eigindir og möguleika til þroska, náms, og tjáningarforms (tungumál, tónlist, myndíð o.fl. o.fl. o.fl.) og það sé foreldra og skóla að skapa börnum aðstæður til að nýta tjáningarformin sín öll. Mikilvægt er að skapa umhverfi með fjölbreyttu leik- og námsumhverfi sem hvetur barn til að skoða hlutina frá mörgum sjónarhornum, til að spyrja spurninga, taka þátt í samræðu og leita svara. Allt nám á að vera á forsendum barna þar sem þeir eru til staðar sem láta sig tilfinningar barna, nám og velferð þeirra varða. „Börn eru gullnáma og það er hlutverk þess fullorðna að fá gullið til að glóa,“ Loris Malaguzzi.

John Dewey

John Dewey var einn áhrifamesti heimspekingur og menntunarfræðingur á fyrri hluta 20. aldar. Hugmyndir Deweys byggja á uppgötvunarnámi, því að börn læra í gegnum athöfn eða leik og með því að prófa sig áfram. Uppgötvunarnám felst í að sjá, að rannsaka, að kanna, að ígrunda og ræða og að læra þannig af reynslunni.  Dewey telur að börnum sé það eðlislægt að læra og þess vegna eiga börn að vera virk í eigin námi. Grunnhugmyndir í uppeldisstefnu Johns Deweys byggja á þeim hugmyndum sem fram koma í einkunnarorðum hans Learning by doing. Mikilvægt er að virkja athafnaþörf og vekja áhuga með því að skapa börnum kringumstæður og umhverfi til að nema í gegnum leik, af eigin upplifun og eigin reynslu.  Eigin virkni og reynsla er forsenda þess að börn skilji umhverfi sitt og samfélag. Heimili og skólar ættu að vinna vel saman að lifandi samfellu í námi barna.

Howard Gardner

Sambærilegar hugmyndir koma fram og birtast í Fjölgreindarkenningum  Dr. Howards Gardner  en rannsóknir hans hafa sýnt að greind hvers einstaklings er fjölþætt og að hver og einn þarfnist tækifæri til  að þroska hæfileika (greind) sína en líka til að finna sínar sterkustu hliðar  ,,Sinn eigin gjörvileika“.   Howard Gardner telur að hver einstaklingur búi yfir öllum greindunum. Greindirnar starfi saman á einstakan hátt hjá hverjum og einum.  Hann telur að hver einstaklingur búi yfir hæfni til að þróa allar greindirnar á nokkuð hátt getustig fái hann örvun og námsumhverfi við hæfi. Greindirnar sem Gardner hefur rannsakað og staðsett í heilastarfseminni eru:  Málgreind, Rök- og stærðfræðigreind, Rýmisgreind, Hreyfigreind, Tónlistagreind, Sjálfsþekkingargreind, Samskiptagreind og Umhverfisgreind. Þær starfa saman á flókinn og samofinn hátt. Hann telur að greind sé í raun ekki til ein og sér og að allar greindirnar (færni okkar) starfa saman á einn eða annan hátt.

Daniel Goleman 

Goleman hefur rannsakað og fjallað um tilfinninga- og vitsmunahug einstaklingsins allt frá frumbernsku og nefnt Tilfinningagreind. Rannsóknir taugasálfræðinnar hafa á undanförnum árum varpað æ skýrara ljósi á flókna og fjölþætta starfsemi heilans. Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að gott gengi í námi sé að miklu leyti háð tilfinningalegri færni einstaklinganna, hæfni sem þróast í frumbernsku og fram eftir aldri. Barn þarf að búa við tilfinningalega styðjandi umhverfi þ.m.t. ást, festu, hvatningu, umhyggju og öryggi til að öðlast sjálfstraust, staðfestu og innri aga.  Það skiptir afar miklu máli að mótunaraðilar í umhverfi barnsins hafi skilning og þekkingu á tilfinninga- og vitsmunalegum þörfum og þroska barna og getu til að mæta þeim, styðja og styrkja.      

bottom of page